Sigurður Bjartur Hallsson, leikmaður karlaliðs KR í fótbolta, er þessa dagana við æfingar hjá króatíska efstudeildarliðinu NK Lokomotiva Zagreb.

Það var Jóhann Már Helgason sem greindi frá þessu í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.

Sigurður Bjartur fór með Lokomotiva Zagred í æfingaferð en hann komst á blað í æfingaleik með liðinu í ferðinni.

Þessi 21 árs gamli sóknarmaður sem gekk til liðs við KR frá Grindavík síðastliðið haust fór í kjölfarið á undirskrift sinni í Vesturbænum til reynslu hjá norska B-deildarliðinu Kongsvinger.

Liðsfélagar Sigurðar Bjarts Hallssonar hjá KR hófu leik í Reykjavíkurmótinu um helgina með því að leggja ÍR að velli með fimm mörkum gegn tveimur.

Kjartan Henry Finnbogason skoraði þar þrennu og Pálmi Rafn Pálmason og Stefán Alexander Ljubicic sitt markið hvor.