Sigurbjörn Árni Arngrímsson, frjálsíþróttalýsandi og prófessor við Háskóla Íslands segist gáttaður á „þeirri steypu“ sem lesin var upp í tengslum við inntöku Guðrúnar Arnardóttur í Heiðurshöll ÍSÍ í gærkvöldi.
Guðrún, sem náði á sínum tíma frábærum árangri í frjálsum íþróttum, var tekin inn Heiðurshöll ÍSÍ við hátíðlega athöfn í Hörpu í gærkvöldi þar sem einnig voru kunngerð úrslit úr kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann-, þjálfara- og lið ársins 2022.
Sigurbjörn segir ÍSÍ hafa farið með miklar fleipur þegar afrek Guðrúnar voru lesin upp í gær í tengslum við inntöku hennar í heiðurshöllina. Hann greinir frá skoðunum sínum í færslu á Facebook þar sem hann segist stoltur af Guðrúnu, hún sé einn allra besti íþróttamaður sem Ísland hefur eignast.
„Ég er hins vegar gáttaður á þeirri steypu sem lesin var upp um hana í kvöld. Sjöunda á OL 1996 í Atlanta??? Nei þar fór hún í undanúrslit og fékk í kjölfarið styrk til þess að stunda æfingar og henni fannst þess vegna hún skulda íslensku þjóðinni að æfa fram yfir OL i Sidney 2000. Þar varð hún svo sjöunda á besta ólympíuári Íslandssögunnar. Svo stundaði hún sitt nám við University of Georgia.“
Sigurbjörn spyr hvort Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þekki ekki sitt íþróttafólk en bætir síðan við í athugasemd síðar við færslu sína að textinn um Guðrúnu hafi farið réttur frá ÍSÍ en það hefur hann frá svari sem hann fékk sent frá sambandinu.
„Vitleysan kemur því ekki þaðan," bætir hann við.
Fréttin var uppfærð 12:50 með athugasemd Sigurbjörns við færslu sína