Paris Saint Germain vann öruggan 5-2 sigur á Strasbourg á laugardaginn en með sigrinum er PSG bundið til að greiða um 180 milljónir evra til Monaco fyrir þjónustu Kylian Mbappe.

Franska ungstirnið sem skaust upp á stjörnuhimininn er Monaco fór alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu á síðasta ári er á láni hjá Parísar-liðinu á þessu tímabili en var það gert til að komast hjá reglum evrópska knattspyrnusambandsins.

Eftir kaup frönsku meistaranna á Neymar gátu þeir ekki eytt meiri pening og var því farin sú leið að fá Mbappe á láni yfir tímabilið með ákvæði um að hann yrði keyptur að tímabilinu loknu ef PSG myndi ekki falla úr efstu deild.

Var það alltaf ljóst að Parísar-liðið myndi ekki falla skyndilega úr deildinni en PSG hefur lent í 1. eða 2. sæti deildarinnar undanfarin sex ár og styrkti sóknarlínuna af krafti í sumar.

Hinn 19 ára gamli Mbappe tók ekki þátt í leiknum á laugardaginn en það kom ekki að sök. Hefur hann komið við sögu í 18 leikjum og skorað í þeim níu mörk ásamt því að leggja upp sjö í frönsku deildinni.