„Við vitum það allar hversu mikilvægur þessi leikur er og við erum tilbúnar til þess að leggja allt í sölurnar í dag,“ segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, sem hefur borið fyrirliðabandið til þessa í undankeppninni, aðspurð hvernig leikmannahópurinn nálgist leikinn í dag.

Íslenska kvennalandsliðið hefur verið áður í þessum sporum fyrir leik gegn Tékklandi sem fór úrskeiðis en Stelpurnar okkar virðast einbeittar og tilbúnar í slaginn.

„Þær eru með gott lið, þéttar til baka en við þurfum að einbeita okkur að okkar leik því við ætlum okkur að taka stigin þrjú,“ segir Gunnhildur enn fremur.

Íslenska kvennalandsliðið mætir því tékkneska í Teplice í dag þar sem sigur fer langt með að tryggja Íslandi að minnsta kosti umspilssæti í undankeppni HM 2023 sem fer fram í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi á næsta ári.

Íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei komist í lokakeppni HM en er með örlögin í eigin höndum þegar liðið á þrjá leiki eftir í undankeppninni.

Þetta verður sjöunda viðureign Íslands og Tékklands. Til þessa hefur Ísland unnið tvo, Tékkland tvo og tveimur leikjum lokið með jafntefli.

Að sama skapi eru Tékkar að berjast fyrir lífi sínu í undankeppninni og á Þorsteinn Halldórsson, þjálfari liðsins, von á því að Tékkarnir reyni að byrja af krafti sem íslenska liðið þurfi að standast.

„Við gerum okkur grein fyrir því að Tékkarnir þurfa að vinna þennan leik og eigum von á því að þær reyni að pressa á okkur og reyna að knýja fram mistök af okkar hálfu. Við þurfum að vera viðbúin öllu sem hægt er að undirbúa og vera tilbúin að bregðast við því hvað Tékkarnir gera. Þessi leikur mun krefjast mikillar þolinmæði af okkar hálfu.“

Tékkneska liðið er erfitt heim að sækja og var nálægt því að vinna Evrópumeistara Hollands undir lok síðasta árs. Tékkar komust tvisvar yfir í leiknum en Hollendingar björguðu stigi á lokamínútu leiksins.

Þá áttu Stelpurnar okkar í meiri vandræðum með tékkneska liðið ytra en hér heima í síðustu undankeppni, þó að leikirnir hafi báðir endað með jafntefli.

„Tékkar eru eru sterkar varnarlega. Spila yfirleitt mjög þéttan og skipulagðan varnarleik, notast við lágpressu í varnarleik sínum. Þegar þær eru með boltann halda þær honum vel, þolinmóðar og með sterka leikmenn fram á við sem eru að spila í háum gæðaflokki. Heilt yfir er þetta flott fótboltalið, góðar í sínum styrkleikum og hafa verið að sýna það undanfarið með góðum úrslitum,“ segir Þorsteinn, aðspurður við hverju megi búast af tékkneska liðinu í dag.