Íslenska karlalandsliðið í körfubolta mætir í dag Slóvakíu í Pristina í Kosovó í forkeppni fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer árið 2023. Sigur í leiknum í dag tryggir íslenska liðinu sæti í næsta stigi undankeppninnar fyrir heimsmeistaramótið. Liðin mættust í forkeppninni í Laugardalshöllinni fyrir tæpu ári síðan og þá fór íslenska liðið með sigur af hólmi.

Ísland leikur tvo leiki í þessum glugga en um er að ræða lokaleiki riðlakeppninnar í forkeppninni en liðið leikur við Lúxemborg á laugardaginn kemur. Tvö efstu lið riðilsins fara áfram og leika í ágúst í næsta stigi undankeppninnar. Fyrir lokaleikina tvo er Ísland í efsta sæti síns riðils með sjö stig og þarf einn sigur til að gulltryggja sæti sitt áfram.

Einn nýliði er í 13 manna leikmannahópnum sem Craig Pedersen valdi fyrir leikina tvo sem fram undan eru, en það er Styrmir Snær Þrastarson sem leikið hefur einkar vel með Þór Þorlákshöfn í vetur.