Íslenska landsliðið í fótbolta bar sigurorð af Moldóvum 1-2 í Chisinau í lokaleik liðsins í H-riðli undankeppninnar á EM. Þetta er fyrsti sigur Íslands í nóvember en liðið hafði spilað 12 leiki án þess að taka stigin þrjú.

Kolbeini Sigþórssyni tókst ekki að bæta markamet Eiðs Smára Guðjohnsen í leiknum en hann meiddist á ökkla eftir hálftíma leik. Stökk upp í skallaeinvígi og kom eitthvað illa niður og hélt strax um ökklann.

Birkir Bjarnason var frábær í fyrri hálfleik þó hann hefði geta fokið útaf þegar hann braut illa af sér eftir 20 mínútur. Birkir skoraði eina mark fyrri hálfleiksins. Mikael Neville Anderson, sem kom svo vel inn í leikinn gegn Tyrkjum, hélt áfram að heilla með frammistöðu sinni. Hann fékk tvær heljarinnar byltur í leiknum og yfirgaf völlinn eftir 54 mínútur.

Kolbeinn meiddist á ökkla og þurfti að fara af velli.

Þó heimamenn séu 136 sætum neðar en Ísland á heimslistanum sýndu þeir alveg að þeir gátu ógnað vörn Íslands, enda enginn Kári Árnason. Sverrir Ingi kom í hans stað sem kom töluvert á óvart enda virtist Jón Guðni Fjóluson vera kominn á undan honum í hinni frægu goggunarröð.

Sverrir skellti sér í hlutverk áhorfanda þegar heimamenn jöfnuðu og starði á Nicolae Milinceanu sem skoraði gott mark. Sem betur fer fyrir hann tók það stuttan tíma að komast aftur yfir.

Það kom frá Gylfa Sigurðssyni eftir frábæra sókn sem Gylfi batt endahnút á. Skömmu síðar skutu heimamenn í stöng eftir enn einn furðuvarnarleikinn frá Ragnari og Sverri Inga.

Gylfi fékk svo gullið tækifæri til að bæta við þriðja markinu þegar brotið var á Arnór Sigurðssyni innan teigs. En Gylfi hefur verið dapur á vítapunktinum undanfarið og lét Alexei Koselev verja frá sér.

Lokatölur 1-2 sem verður að teljast fínustu úrslit þó viðvörunarbjöllur klingdu um allan varnarleikinn sérstaklega. Þá komu varamennirnir ekkert sérstaklega sterkir inn og Kolbeinn meiddist. Hann hefur þó alveg til mars að ná sér góðum.

Arnór Sigurðsson krækti í vítaspyrnu sem Gylfi Sigurðsson klúðraði.