Sigtryggur Arnar Björnsson, landsliðsmaður í körfubolta, mun ekki leika meira með Grindavík í Dominos-deild karla á leiktíðinni en hann hefur samið við spænska liðið Real Canoe í Madríd sem leikur í B-deildinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu á facebook-síðu Grindavíkur.

Sigtryggur Arnar gekk til liðs við Grindavík árið 2018 en hann skoraði 17,8 stig að meðaltali í leik á síðasta keppnitímabili

„Þetta tækifæri kom óvænt upp. Ég er mjög þakklátur stjórn körfuknattleiksdeildar Grindavíkur fyrir að sýna þessu skilning og gefa mér heimild til að fara í atvinnumennsku. Stefnan var sett á að gera góða hluti með Grindavík eftir áramót. Þetta tækifæri er of gott til að sleppa því á þessum tímapunkti á mínum ferli.

Ég vil koma á framfæri kveðju til stuðningsmanna Grindavíkur sem hafa tekið vel á móti mér frá fyrsta degi. Mér hefur liðið mjög vel hjá félaginu og mun fylgjast grannt með gengi Grindavíkur áfram,“ segir Sigtryggur Arnar um vistaskiptin í samtali við heimasíðu Grindavíkur.

Þar kemur enn fremur fram að Grindavík hafi nú þegar hafið leit að leikmanni til að leysa Sigtrygg Arnar af hólmi.

Sigtryggur Arnar semur við lið á Spáni Sigtryggur Arnar Björnsson mun ekki leika meira með Grindavík í Dominos-deild...

Posted by Körfuknattleiksdeild Grindavíkur on Þriðjudagur, 12. janúar 2021