Magnús Eiríksson, 71 árs Siglfirðingur, gengur næsta sunnudag Vasagönguna í Svíþjóð 27. árið í röð. Gangan er 90 kílómetrar en til að hita almennilega upp gekk Magnús aðra 90 kílómetra göngu ásamt eiginkonu sinni í Svíþjóð síðastliðinn mánudag!
„Það má kannski segja að maður þyki hálfruglaður að láta svona, en mér finnst þetta gaman og gangan heldur mér í góðu formi,“ sagði Magnús þegar Fréttablaðið náði tali af Magnúsi í gær.
Þá var Magnús enn á skíðum, í „léttri liðkun“ eins og kann kallaði það með eiginkonu sinni, Guðrúnu Ólöfu Pálsdóttur skrifstofukonu. Guðrún gengur mikið með honum og hefur að sögn Magnúsar reynst stoð og stytta í öllum þeim áföngum sem nú eru að baki og sagan langt í frá enn öll.
Gangan á sunnudag verður 27. Vasaganga Magnúsar í röð. Hann fór fyrst út árið 1997, þá 46 ára, og viðurkennir að það sé ekki algengt að þátttakendur missi ekki úr eitt einasta ár.
„Nú er mig farið að klæja í fingurna að ná 30 Vasagöngum. Þá kemst maður í sérstakan klúbb, svona heiðursklúbb, það er það sem alla dreymir um.“
Magnús og Guðrún hafa lengst af búið á Siglufirði en upp á síðkastið hafa þau búið í Fljótum. Þau stunda í sveitinni gönguskíðin þegar aðstæður leyfa, annars hjólaskíði á vegum.
„Þegar ég varð ellilífeyrisþegi þá fluttum við,“ segir Magnús sem er lærður húsasmíðameistari. „Ég hef alla tíð unnið erfiðisvinnu,“ segir hann og þakkar vinnunni að hluta gott líkamsform.
Hann keppti á heimsmeistaramóti fyrir Ísland í skíðagöngu þegar hann var yngri. Guðrún, kona hans, varð um árabil einnig Íslandsmeistari á skíðum. Afreksblóðið eiga þau hjónin saman.

„Kannski má ekki segja frá því en ég borða mikinn sykur,“ segir hann um hvort hann búi yfir leyndarmáli hvað varðar næringuna.
„Ég borða allan mat og þótt ég sé skammaður fyrir að vera í sælgætinu þá held ég nú að ég brenni þessum sykri.“
Spurður hvaða ráð svo þrautreyndur höfðingi getur gefið okkur hinum þegar við erum nálægt því að lyppast niður við verkefni sem reyna á þrek og þor svarar hann:
„Málið er bara að missa aldrei hausinn. Ef maður er að verða örmagna þá þarf bara að hugsa um næstu stöð, einblína á það að komast á næstu stöð. Það er þannig sem maður kemst áfram,“ segir Magnús.
„Ekki langar mann að enda sem sófakartafla.“
„Það hefur verið farið vel með hann Magnús minn, honum hefur verið pakkað inn í bómull,“ sagði Guðrún Ólöf, 68 ára, og hló þegar blaðamaður hafði á orði hve vel þau hjónin bæru aldurinn.