Magnús Ei­ríks­son, 71 árs Sigl­firðingur, gengur næsta sunnu­dag Vasa­gönguna í Sví­þjóð 27. árið í röð. Gangan er 90 kíló­metrar en til að hita al­menni­lega upp gekk Magnús aðra 90 kíló­metra göngu á­samt eigin­konu sinni í Sví­þjóð síðast­liðinn mánu­dag!

„Það má kannski segja að maður þyki hálf­ruglaður að láta svona, en mér finnst þetta gaman og gangan heldur mér í góðu formi,“ sagði Magnús þegar Frétta­blaðið náði tali af Magnúsi í gær.

Þá var Magnús enn á skíðum, í „léttri liðkun“ eins og kann kallaði það með eigin­konu sinni, Guð­rúnu Ólöfu Páls­dóttur skrif­stofu­konu. Guð­rún gengur mikið með honum og hefur að sögn Magnúsar reynst stoð og stytta í öllum þeim á­föngum sem nú eru að baki og sagan langt í frá enn öll.

Gangan á sunnu­dag verður 27. Vasa­ganga Magnúsar í röð. Hann fór fyrst út árið 1997, þá 46 ára, og viður­kennir að það sé ekki al­gengt að þátt­tak­endur missi ekki úr eitt einasta ár.

„Nú er mig farið að klæja í fingurna að ná 30 Vasa­göngum. Þá kemst maður í sér­stakan klúbb, svona heiðurs­klúbb, það er það sem alla dreymir um.“

Magnús og Guð­rún hafa lengst af búið á Siglu­firði en upp á síð­kastið hafa þau búið í Fljótum. Þau stunda í sveitinni göngu­skíðin þegar að­stæður leyfa, annars hjóla­skíði á vegum.

„Þegar ég varð elli­líf­eyris­þegi þá fluttum við,“ segir Magnús sem er lærður húsa­smíða­meistari. „Ég hef alla tíð unnið erfiðis­vinnu,“ segir hann og þakkar vinnunni að hluta gott líkams­form.

Hann keppti á heims­meistara­móti fyrir Ís­land í skíða­göngu þegar hann var yngri. Guð­rún, kona hans, varð um ára­bil einnig Ís­lands­meistari á skíðum. Af­reks­blóðið eiga þau hjónin saman.

Magnús stefnir að því að komast í heiðursklúbb þeirra sem ganga Vasa 30 ár í röð.
Mynd/aðsend

„Kannski má ekki segja frá því en ég borða mikinn sykur,“ segir hann um hvort hann búi yfir leyndar­máli hvað varðar næringuna.

„Ég borða allan mat og þótt ég sé skammaður fyrir að vera í sæl­gætinu þá held ég nú að ég brenni þessum sykri.“

Spurður hvaða ráð svo þraut­reyndur höfðingi getur gefið okkur hinum þegar við erum ná­lægt því að lyppast niður við verk­efni sem reyna á þrek og þor svarar hann:

„Málið er bara að missa aldrei hausinn. Ef maður er að verða ör­magna þá þarf bara að hugsa um næstu stöð, ein­blína á það að komast á næstu stöð. Það er þannig sem maður kemst á­fram,“ segir Magnús.

„Ekki langar mann að enda sem sófa­kar­tafla.“

„Það hefur verið farið vel með hann Magnús minn, honum hefur verið pakkað inn í bóm­ull,“ sagði Guð­rún Ólöf, 68 ára, og hló þegar blaða­maður hafði á orði hve vel þau hjónin bæru aldurinn.