Sigurður Sveinn Þórðarson hefur verið ráðinn á knattspyrnusvið knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, og mun Sigurður Sveinn hefja störf hjá sambandinu 4. ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram í frétt sem birtist inni á heimasíðu KSÍ í dag.

Sigurður Sveinn, sem gengur alla jafna undir nafninu Siggi Dúlla, er ráðinn í fullt starf til 31. desember 2020. Til að byrja með mun Sigurður einbeita sér að verkefnum tengdum A landsliði karla og Evrópukeppni félagsliða.

Hann er í dag rekstrarstjóri Stjörnunnar og hefur mikla reynslu af störfum innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Hann hefur starfað fyrir Stjörnuna, með hléum, frá árinu 2000 hvort sem það er sem þjálfari, dómari, vallarstarfsmaður, vallarstjóri og nú síðast sem skrifstofustjóri frá árinu 2018.

Einnig hefur Sigurður starfað mikið á vettvangi KSÍ og hefur hann verið búningastjóri og í liðsstjórn A landsliðs karla frá 2011.