Sigfús Sigurðsson, fyrrum landsliðsmaður í handbolta var ómyrkur í máli á Rás 2 þegar hann ræddi handboltalandsliðið eftir slæmt tap liðsins í gær.
Afleitur sóknarleikur varð íslenska karlalandsliðinu í handbolta að falli er liðið tapaði í kvöld sínum fyrsta leik eftir vonbrigðin sem liðið upplifði á HM. Andstæðingur kvöldsins var Tékkland í undankeppni EM, Tékkarnir voru sterkari og unnu að lokum fimm marka sigur 22-17.
Jafnframt var þetta fyrsti leikur íslenska liðsins eftir starfslok Guðmundar Guðmundssonar, fyrrum landsliðsþjálfara. Ágúst Jóhannsson og Gunnar Magnússon stýrðu íslenska liðinu í kvöld.
„Mér leið frekar illa, þetta var ein hörmung frá fyrstu mínútu til loka. Það eru kannski tveir menn sem komast skammlaust frá þessu. Bjöggi varði vel í markinu og bjargaði því að þetta fór ekki verr en það gerði og svo var Viggó ágætur sóknarlega. Ýmir var allt í lagi varnarlega, en ekkert meira en það," sagði Sigfús ómyrkur í máli áRás2 í morgun.

„Það þarf hver og einn að líta í eigin barm, hvað gerist í þessum leik og síðustu mótum. Þetta byrjaði ekkert í gær, þetta er búið að vera í gangi lengi.“
Rætt hefur verið um andleysi í íslenska hópnum. „Ég hef aldrei spilað leik þar sem við skoruðum ekki í tíu mínútur, menn þurfa að halda áfram. Þú getur gert mistök og íþrótt eins og handbolti, snýst um hvort liðið gerir færri mistök. Menn þurfa að skoða hvað þeir gerðu rangt og reyna að laga það.“
Sigfús segir að breytinga sé þörf og að leikmenn sem hafa átt fast sæti í hópnum þurfi að víkja.
„Með þetta andleysi sem var, öskur og læti er eitt en að skila því inn á völlinn er annað. Þetta var sama sullið og hefur verið undanfarið, það verða að vera breytingar. Það eru menn þarna inni sem hafa lengi verið í landsliði og aldrei sannað að þeir eigi heima þarna.“