Tilkynnt var á miðvikudaginn að Sif Atladóttir, landsliðskona í fótbolta, hafi ákveðið að leika undir stjórn eiginmanns síns, Björns Sigurbjörnssonar, hjá Selfossi á komandi keppnnistímabili. Sif kemur á Selfoss frá Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún hefur leikið síðasta áratuginn um það bil.

„Það voru nokkur félög, bæði í efstu og næstefstu deild, sem höfðu samband við mig eftir að ég gaf það út að ég væri á leiðinni heim. Ég var alveg hreinskilinn við þau félög sem ég ræddi við að það þyrfti allt að ganga upp varðandi fjölskylduhagi og fótboltann til þess að ég gæti samið þar.

Þegar ég velti öllu því sem var í boði þá leist mér best á Selfoss og ég er bara virkilega ánægð með þá ákvörðun. Það er þægilegt að vera búin að taka þessa ákvörðun og nú tekur bara við að pakka búslóðinni og koma okkur heim. Stefnan er að vera komin heim 18. desember og byrja að æfa með liðinu í kjölfarið,“ segir Sif um vistaskiptin.

Spennandi ár hjá Selfossi og landsliðinu

„Það er spennandi tilhugsun að vera að fara að spila aftur heima eftir 12 ára veru erlendis. Markmiðið hjá mér persónulega er að koma mér í gott líkamlegt form og halda sæti mínu í landsliðinu þar sem eru mjög spennandi verkefni á næsta ári, bæði í riðlinum í undankeppni HM og svo lokakeppni Evrópumótsins næsta sumar.

Ég er líka spennt fyrir því að minna á mig þar sem margir hafa kannski bara séð mig með landsliðinu síðustu árin en minna með félagsliðunum,“segir varnarmaðurinn þrautreyndi sem lék með Val, Þrótti, FH og KR á Íslandi áður en hún fór utan til Þýskalands þar sem hún spilaði í tvö ár.

„Það er gaman að sjá að Barbára Sól Gísladóttir ætli að taka slaginn með Selfossi næsta sumar og ég hlakka til að vinna með henni í varnarlínunni og reyna að miðla af reynslu minni til hennar og annarra ungra og efnilegra leikmanna sem eru í leikmannahópnum. Markmiðið á Selfossi er að gera betur en á síðustu leiktíð,“ segir hún um komandi tíma við bakka Ölfusárbrúnnar.

„Það er frábær aðstaða á Selfossi og haldið hefur verið vel utan um kvennastarfið hjá félagið þarna. Í viðræðum mínum við önnur félög var líka spennandi að sjá metnaðinn fyrir kvennafótbotlanum þar og ég finn það áfþreifanlega að það séu spennandi tímar handan við hornið í íslenskum fótbolta kvennamegin,“ segir Sif um framhaldið.

Kristianstad hefur notið þjónustu Sifjar í áratug um það bil.
Mynd/Kristianstad