„Við Íslendingar erum líklega sú íþróttaþjóð sem mest er rætt um í heiminum. Fólk veltir regluglega fyrir sér: Afhverju á Ísland svona mikið af íþróttafólki, í öllum íþróttum? Þetta hafið þið eflaust heyrt oftar en ekki þegar það eru stórmót, keppnir eða jafnvel bara þegar einhver erlendur einstaklingur ræðir við ykkur um Ísland," segir Sif Atladóttir landsliðskona í knattspyrnu í færslu sem birtist á facebook-síðu hennar í dag.

„Við eigum alveg ótrúlegt íþróttafólk og við íslendingar erum stolt af því. Þegar við situm við sjónvarpið eða í stúkunni og hvetjum þau áfram, í bláa litnum okkar sem einkennir okkur íslendingana, þá er eins og við erum sjálf að keppa. Spennan, adrenalínið, gleðin, svekkelsið, reiðin, þetta er allt hlutir sem við upplifum með íþróttafólkinu okkar.

Svo þegar öllu er lokið þá slökkvum við á sjónvarpinu, eða röltum heim og ræðum hvernig leikurinn eða mótið gekk og förum heim í annað hvort sæluvímu, svekkt eða alveg sama um hvernig okkar lið stóð sig," segir Sif enn fremur en rætt hefur verið um málefni afreksíþróttafólks síðustu daga og þá til að mynda í sambandi við baráttu þeirra við áhrifavalda um fjárhagslega styrki.

Það er full vinna að vera afreksíþróttamaður

„Eftir sitjum við íþróttafólkið og aftengjum okkur ekki frá leiknum eða mótinu. Hvert einasta augnablik er skoðað í þaula, til þess að gera betur á morgun. Endurheimt bíður strax eftir leik. Ræktin bíður daginn eftir, oftast snemma um morguninn þar sem vinna eða skóli stoppar ekki þegar við erum að keppa. Eftir vinnu eða skóla er æfing þar sem við greinum hvað er hægt að bæta fyrir næsta leik eða keppni. Við komum heim, borðum og förum að sofa snemma því næsti dagur bíður," segir miðvörðurinn öflugi.

„Að vera afreksíþróttamaður er að vera 100% í vinnu 24/7 allt árið. Allt snýst um að verða betri í sinni grein. Flest afreksfólk er einnig í skóla eða vinnu til þess að eiga möguleika á að stunda sína íþrótt og mögulega ná að vera fulltrúi Íslands úti í hinum stóra heimi. Sjáið fyrirmyndirnar sem við eigum í afreksfólkinu okkar. Gildi eins og: þrautseigja, auðmýkt, heilindi, samúð, hugrekki, samvinna, gleði og að elska það sem þú gerir og gerðu það bara, er það sem íþróttirnar kenna okkur," segir hún til útskýringar

„Horfum á gildin sem afreksíþróttafólkið kennir börnunum okkar og metum það betur. Styðjum afreksfólkið okkar, innan sem utan vallar. Eins og Andri Stefánsson afreksstjóri ÍSÍ sagði: Þið munuð fá svo ótrúlega mikið til baka," segir Sif í lok færslu sinnar.