Michael Jordan og síðasti dans hans með Chicago Bulls, hefur sýnt að besti körfuboltamaður allra tíma var mannlegur. Hann gerði fullt af mistökum, klikkaði á fullt af skotum og tapaði alveg fullt af leikjum. Maðurinn sem kom NBA á heimskortið hefur minnt á sig á ný að undanförnu með 10 þátta seríu, The Last Dance, sem sýndur var á Netflix og lauk á mánudag. Trúlega vöknuðu allir yfir þrítugu hér á landi snemma á mánudagsmorgni til að horfa. Sumir jafnvel sóttu úr geymslunni gömlu körfuboltaspjöldin í möppunum til að hafa nálægt sér.

Þáttaröðin sýnir tímabilið 1997-1998 hjá Chicago Bulls. Félagið hafði leyft tökuliði aðgang að liðinu allt tímabilið og fullt af klippum sem aðdáendur voru að sjá í fyrsta sinn voru sýndar.

Horace Grant fyrrum samherji Jordan er ekki ánægður að vera bendlaður við leka úr klefanum.

Það er þó fullt af hlutum sem standa eftir til að ræða um. Eins og að Chicago Bulls hafi tekið þá ákvörðun að hlusta ekki á besta leikmann liðsins og reka einn besta þjálfara sem staðið hefur á hliðarlínunni, eftir þetta tímabil sem fjallað var um. Alveg sama þótt hópurinn væri hundgamall. Leikmenn eru komnir með mun meiri völd og trúlega myndi þetta ekki gerast í nútímahópíþrótt í dag. Sé þetta fært yfir í fótboltann er erfitt að sjá fyrir sér að Barcelona myndi bara henda Lionel Messi, Luis Suarez, Sergio Busquets, Gerard Pique og Ivan Rakitic frá sér. En þarna leyfði eigandi Bulls framkvæmdastjóranum að taka liðið í sundur. Michael Jordan lagði skóna á hilluna, Phil Jackson hvarf frá hliðarlínunni, Dennis Rodman fór eins og Scottie Pippen og Steve Kerr, svo nokkrir séu nefndir.

Þess má geta að síðustu 60 sekúndur Jordans í búningi Bulls, skoraði hann sex stig, stal boltanum af Karl Malone og henti Byron Russell í sögubækurnar, með einni stórkostlegri hreyfingu til að tryggja Bulls titilinn. Trúlega er Russell enn að hugsa um þessa stund.

Phil Jackson og Michael Jordan með bikarana eftir að hafa unnið Utah Jazz. Þættirnir fjalla um síðasta dans liðsins saman en það var tekið í sundur í kjölfarið og farið í enduruppbyggingu.

Það var alveg vitað að þáttaröðin Last Dance yrði góð. ESPN films hafa sýnt það í gegnum tíðina að þeir fara glæsilega með gamalt NBA-efni. Þáttaröðin 30 for 30 hefur verið að gera margar stórkostlegar NBA-myndir. Without Bias, Once Brothers, Bad Boys og I Hate Christian Laettner eru ekkert minna en frábærar myndir fyrir alla. Jafnvel þótt íþróttaáhuginn sé lítill. Þessi er það líka.

En það eru ekki allir sáttir við hversu hnausþykk Jordan-gleraugun eru á seríunni. Horace Grant, sem var lykilmaður þegar Chicago vann þrjú ár í röð frá 1991-1993, var sagður hafa lekið upplýsingum til blaðamannsins Sams Smith þegar hann skrifaði bókina The Jordan Rules. Bókin dró upp mynd af Jordan sem var ekki máluð í þeim fallegu litum sem ímynd hans hafði verið. Jordan á að hafa hvatt leikmenn Bulls til að gefa erfiðar sendingar á Bill Cartwright og einnig kýldi hann annan miðherja, Will Purdue. Grant og Smith eru vinir en Grant sagði í Last Dance að hann myndi aldrei fara með mál innan búningsklefans til blaðamanns. Hann hefur í vikunni varið sig enn frekar. „Þættirnir eru skemmtilegir, en við sem vorum samherjar hans vitum að níutíu prósent af því sem kemur þar fram er kjaftæði hvað sannleikann varðar,“ sagði Grant í útvarpsþættinum Kap and Co. á ESPN.

Michael Jordan er trúlega besti íþróttamaður sögunnar þó hann hafi ekki verið ljúfur sem lamb utan vallar.

Smith sagði í The HoopsHype podcastinu að þættirnir væru skemmtilegir áhorfs, en hann hjó eftir því hvað Jordan var opinn. „Þegar bókin kom út var hann orðinn svo ofboðslega frægur og það var aðeins komið inn á veðmálin hans í bókinni minni, auk nokkurra annarra hneykslismála. Hann setti upp varnir í kjölfarið en þetta er í fyrsta sinn sem hann hefur verið svona opinn, trúlega síðan hann kom inn í deildina.“ Smith bendir á að honum hafi brugðið þegar hann sá að þættirnir ættu að vera 10, enda hafi tímabilið ekki verið það eftirminnilegt. Pippen var mikið frá og hversu mikið er hægt að vera með Dennis Rodman fyrir framan myndavélarnar? Hann var þó sáttur við lokaniðurstöðuna, ólíkt nokkrum öðrum. Kvikmyndagerðarmaðurinn Ken Burns benti á að Jordan væri með sitt fólk í framleiðsluliðinu og nokkrum vel þekktum blaðamönnum vestanhafs finnst eins og myndin hafi verið máluð fegurri litum en tilefni var til.

Ein frægasta troðsla sögunnar kom árið 1988 á heimavelli þar sem Jordan vann troðslukeppnina.

Þá hefur matareitrunin verið hrakin af Pizza Hut í Utah, þar sem Jordan spilaði fárveikur. Craig Fite, aðstoðarframkvæmdastjóri á Pizza Hut á þessum tíma, segist hafa gengið á vegg af vindlareyk þegar lyftan opnaðist á hæðinni þar sem Jordan var og hann hafði séð Jordan vera að spila og reykja vindil þegar hann leit inn í herbergið. Trúlega hafi hann veikst af því en ekki pitsunni.

Eins eru margir fyrrverandi liðsfélagar Jordans frá fyrri tíð ekki sáttir, því hann henti öllu liðinu undir rútuna strax í fyrsta þætti, þegar hann talaði um að flestir leikmenn notuðu kókaín. Það hefur ekki farið vel í gamla liðsfélaga.

Trúlega væri Jordan ekki þessi hetja hefðu samfélagsmiðlar og blaðamenn fortíðar ekki verið svona lélegir. Hann var jú keðjureykjandi eineltisseggur sem veðjaði á allt sem til var, lamdi samherja sína og pantaði sér pepperónípitsu kvöldið fyrir risaleik í úrslitakeppninni og borgaði ástmey sinni, Körlu Knafel, 250 þúsund dollara fyrir að halda sambandi þeirra leyndu. Honum og Bulls var sópað út af Boston Celtic tvisvar og hann tapaði þrisvar fyrir Detroit Pistons, sem hann getur ekki gleymt. En sama hverju menn reyna að smyrja á hann þá er Michael Jordan trúlega besti íþróttamaður allra tíma, ef ekki sá besti.

Jordan og Kobe Bryant ræða saman í leik. Þeim var vel til vina og hefði verið gaman að sjá Lakers fá að kljást við Bulls liðið hefði það ekki verið tætt í sundur.