Shaquille O‘Neal borgaði á dögunum reikninginn fyrir alla gesti veitingahúss sem hann heimsótti. Auk þess bauð hann öllum þjónum staðarins upp á kvöldmat í sínu boði. Reikningurinn hljóðaði upp á það sem nemur um 3,3 milljónum íslenskra króna.
Gestir staðarins staðfestu þetta við Page Six. O‘Neal var staddur á stefnumóti á veitingastaðnum. Alls sá þessi 50 ára gamli fyrrum körfuknattleiksmaður um reikninga hjá 40 borðum. Þá kemur einnig fram að hann hafi greitt starfsmönnum rausnarlegt þjórfé.
Það er óhætt að fullyrða að O‘Neal hafi ekki átt í miklum vandræðum með að reiða fram upphæðina. Eigur hans eru metnar á um 400 milljónir Bandaríkjadala.
Á ferli sínum sem leikmaður í NBA-deildinni vestanhafs lék O‘Neal með Orlando Magic, Los Angeles Lakers, Miami Heat, Phoenix Suns, Cleveland Cavaliers og Boston Celtics. Hann varð fjórum sinnum meistari með sínu liði.