Lewis Hamilton, ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1, er með góða styrktaraðila en í úttekt Daily Mail kemur fram að auglýsingarnar á keppnisbúningi hans séu að verðmæti 112 milljóna punda, eða tæplega 16 milljarða króna.

Á búningi Hamiltons eru 12 auglýsingar frá jafn mörgum fyrirtækjum.

Malasíska gas- og olíufyrirtækið Petronas er aðalstyrktaraðili Mercedes og borgar 50 milljónir punda fyrir auglýsingu á búningi Hamiltons.

Á búningnum má einnig finna auglýsingar frá Bose, Puma, Epson og Tommy Hilfiger.

Hamilton hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari, þar af þrisvar með Mercedes.

Búist er við því að Hamilton skrifi undir nýjan þriggja ára samning við Mercedes á næstu dögum. Hann ku vera 120 milljóna punda virði.