Ísland mætir Barein í þriðja leik sínum í B-riðli á heimsmeistaramótinu í handbolta í dag. Leikurinn hefst klukkan 14:30. Þjálfari Bareins er Aron Kristjánsson en hann tók við starfinu af Guðmundi Guðmundssyni sem nú stýrir íslenska liðinu.

Þetta er fyrsti leikur Íslands og Barein á HM frá upphafi. Íslenska liðið hefur hins vegar níu sinnum áður mætt Asíuþjóð á heimsmeistaramóti.

Fyrstu þrír leikirnir gegn Asíuþjóðum á HM töpuðust. Ísland tapaði með eins marks mun, 19-20, fyrir Japan á HM 1970. Í fyrsta leik sínum á HM 1986 mættu Íslendingar Suður-Kóreumönnum og töpuðu stórt, 21-30. Guðmundur Guðmundsson lék þann leik. Ísland mætti Suður-Kóreu aftur á HM á Íslandi 1995 og tapaði 23-26.

Síðan þá hefur Ísland leikið sex leiki gegn Asíuþjóðum á HM og unnið þá alla, flesta stórt. Fyrsti sigurinn gegn Asíuþjóð á HM kom gegn Japönum 1997, 24-20.

Japan er einmitt fjórði mótherji Íslands á HM 2019. Japan, sem Dagur Sigurðsson stýrir, mætir Spáni í dag.

Leikir gegn Asíuþjóðum á HM:


HM 1970
Ísland 19-20 Japan

HM 1986
Ísland 21-30 S-Kórea

HM 1995
Ísland 23-26 S-Kórea

HM 1997
Ísland 24-20 Japan
Ísland 25-22 Sádí-Arabía

HM 2003
Ísland 42-22 Katar

HM 2005
Ísland 30-21 Kúveit

HM 2011
Ísland 36-22 Japan

HM 2013
Ísland 39-29 Katar

9 leikir: 6 sigrar, 0 jafntefli, 3 töp