Tilkynnt hefur verið hvernig byrjunarlið íslenska karlalalandsliðsins í fótbolta verður þegar liðið fær Þjóðverja í heimsókn í undankeppni HM 2022 á Laugardalsvöll klukkan 18.45 í kvöld.

Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen gera sex breytingar á liðinu sem gerði 2-2 jafntefli á móti Norður-Makedóníu í síðustu umferð undankeppninnar.

Hannes Þór Halldórsson stendur á milli stanganna í stað Rúnars Alex Rúnarsson og Ari Freyr Skúlason og Jón Guðni Fjóluson koma inn í varnarlínuna í stað Guðmundar Þórarinssonar og Kára Árnasonar sem á við meiðsli að stríða.

Guðlaugur Victor Pálsson kemur inn á miðsvæðið og Andri Fannar Baldursson víkur fyrir honum. Jóhann Berg Guðmundsson og Þórir Jóhann Helgason munu svo leika á köntunum en Viðar Örn Kjartansson fær sér sæti á varamannabekknum og Mikael Neville Anderson er ekki í leikmannahópnum að þessu sinni.

Byrjunarliðið er þannig skipað: Hannes Þór Halldórsson - Ari Freyr Skúlason, Jón Guðni Fjóluson, Brynjar Ingi Bjarnason, Birkir Már Sævarsson - Guðlaugur Victor Pálsson, Birkir Bjarnason, Ísak Bergmann Jóhannesson - Jóhann Berg Guðmundsson (f), Albert Guðmundsson, Þórir Jóhann Helgason.