Fjórtándu umferð Pepsi Max-deildar kvenna lýkur í kvöld þegar toppliðin tvö, Valur og Breiðablik, mæta liðunum sem léku til úrslita í bikarnum um helgina.

Selfyssingar sem unnu sinn fyrsta stóra titil í knattspyrnu um helgina taka á móti toppliði Vals á meðan Blikar gera sér ferð í Vesturbæinn og mæta KR.

Breiðablik og Valur eru að berjast um Íslandsmeistaratitilinn og má hvorugt liðið við því að tapa stigum í þeirri baráttu.

Tölfræðin er hliðholl nýkrýndum bikarmeisturum í fyrsta leik eftir úrslitaleikinn í Pepsi Max-deild kvenna því á undanförnum níu árum hefur aðeins eitt lið tapað fyrsta leik sínum eftir úrslitaleikinn.

Farið var níu ára aftur í tímann eða aftur til þess þegar ákveðið var að bikarúrslitaleikurinn færi fram á seinni hluta tímabilsins en ekki eftir að tímabilinu lauk.

Blikar töpuðu óvænt 1-2 gegn Aftureldingu eftir að hafa verið krýndar bikarmeistarar árið 2013.

Sá sigur átti eftir að reynast Mosfellingum kærkominn sem héldu sér í deildinni á markatölunni um haustið.

Tvisvar hefur það gerst að ríkjandi bikarmeistarar hafa aðeins náð jafntefli í næsta leik, ÍBV árið 2017 (0-0 jafntefli gegn Fylki í næsta leik) og Breiðablik árið 2016 (1-1 jafntefli gegn Þór/KA í næsta leik.)