Trevor Sinclair, fyrrum leikmaður enska landsliðsins, telur að Raheem Sterling sé kominn í flokk með Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.

Hinn 24 ára gamli Sterling hefur byrjað tímabilið frábærlega með Manchester City og enska landsliðinu eftir að hafa verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Sterling virðist njóta sín til hins ítrasta undir stjórn Pep Guardiola og hefur tekið stórt stökk fram á við á undanförnum átján mánuðum. Undir stjórn Guardiola hefur Sterling sýnt meiri stöðugleika.

„Raheem Sterling er í flokki þriggja bestu knattspyrnumanna heims þessa dagana og mun kosta lið yfir tvö hundruð milljónir punda. Hann er besti leikmaður landsliðsins og fyrsti kostur Guardiola. Ég myndi setja hann í flokk með Ronaldo og Messi þessa dagana. Með þessu áframhaldi verður hann talinn besti leikmaður heimsins.“