Bandaríski körfuboltamaðurinn Kyrie Irving, leikmaður Brooklyn Nets í NBA deildinni hefur verið settur í launalaust leyfi og fimm leikja bann fyrir að ýta undir gyðingahatur. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Brooklyn Nets.
Irving hefur fengið á sig mikla gagnrýni eftir að hann auglýsti kvikmynd sem, með boðskap sínum, ýtir undir gyðingahatur. Irving hafði neitað að biðjast afsökunar á hegðun sinni en það var ekki fyrr en hann hafði verið settur í launalaust leyfi og bann sem hann sendi frá sér afsökunarbeiðni.
„Undanfarna daga höfum við ítrekað reynt að láta Kyrie Irving átta sig á því hvaða slæmu áhrif orð hans og gjörðir, sem hófust með því að hann auglýsti kvikmynd sem innihélt gyðingahatur, leiddu af sér. Við trúðum því að rétta leiðin að þessu væri sú að fræða hann um staðreyndir í þessum efnum og töldum okkur hafa náð árangri," segir meðal annars í yfirlýsingu Nets.
Nets statement pic.twitter.com/8movfKNRdT
— Adrian Wojnarowski (@wojespn) November 3, 2022
Það hafi því komið félaginu mjög á óvart, á blaðamannafundi á dögunum, þegar að Irving neitaði fyrir það að hafa ýtt undir hatursorðræðu með því að auglýsa umrædda mynd. Þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti sem Irving hafi gefist tækifæri á því að skýra stöðu sína. Honum hafi ekki tekist að gera það.
„Það að hann geri ekki hreint fyrir sínum dyrum þegar hann fær tækifæri til þess veldur okkur miklum vonbrigðum, sér í lagi í svona viðkvæmu máli. Þetta gengur gegn stefnu félagsins og hefur skaðleg áhrif á liðið.
Í ljósi þess teljum við hann ekki verðugan þess að standa í stafni hjá Brooklyn Nets. Við höfum ákveðið að hann verði settur í launalaust leyfi þar til hann sýnir iðrun og gegnst við þeim skaðlegu áhrifum sem hegðun hans og orðræða hefur leitt af sér. Þá hefur hann fengið fimm leikja bann."