Fyrir nokkru fluttu fjölmiðlar fréttir um að svindlað hafi verið á reglum um rástímaskráningu í Golfbox kerfinu, þar sem menn hefðu skapað sér forgang í kerfinu með notkun tölvuforrits, svonefndrar skriftu. Hlutverk forritsins er að skrá vélrænt rástíma um leið og opnað er fyrir skráningu í Golfbox kerfinu.

Í ljós kom að um Golfklúbbinn Stullur hafi verið að ræða. Stjórn GR vísaði málinu til aganefndar kúbbsins, sem tilkynnti stjórn sína niðurstöðu í síðastliðnum mánuði. Stjórn GR tók málið fyrir þar sem eftirfarandi var bókað:

,,Stjórn hefur borist niðurstaða aganefndar. Stjórn hefur einnig borist bréf frá Golfklúbbnum Stullum, þar sem stjórn GR og félagsmenn eru beðnir afsökunar á framgöngu sinni og framferði við skráningu rástíma á síðastliðnu golfsumri, jafnframt því að stjórn GR er fullvissuð um að skriftum eða sambærilegum aðferðum verði ekki beitt af hálfu hópsins hér eftir. Einnig hefur komið fram að öðrum í golfhópnum heldur en Steingrími Gaut Péturssyni var ókunnugt um umræddan skráningarmáta."

Í niðurstöðu aganefndar kemur fram að nefndin telji rétt að sá eða þeir, sem gengist hafa við því að hafa hlutast til um skráningu með skriftum, fái skráningarbann í byrjun næsta tímabils. Þá telji nefndin eðlilegt að aðrir aðilar, þ.e. þeir sem skráðir voru í rástíma með umræddum hætti, vitandi eða óafvitandi, verði brýndir um mikilvægi þess að gefa ekki upp notendanöfn og/eða lykilorð. Í niðurstöðu nefndarinnar kemur einnig fram að hún telji brýnt að settar verði skýrari reglur um skráningu rástíma, og viðurlög við brotum.

Í samræmi við niðurstöðu aganefndar var ákveðið að Steingrímur Gautur Pétursson sæti skráningarbanni, sem felur í sér að hann hafi ekki aðgang að golfvöllum GR. Skráningarbannið tekur gildi sama dag og opnað verður fyrir skráningu á 18 holum á Korpúlfsstaðavelli eða Grafarholtsvelli, eftir því hvor völlurinn opnar fyrr, á golftímabilinu 2022, og skal vara í einn mánuð.

Stjórn GR tekur framkomna afsökunarbeiðni gilda. ,,Að teknu tilliti til hennar og annars þess sem fram er komið er málinu lokið með þessum hætti.”