Brooklyn Nets hefur tilkynnt Kyrie Irving, bakverði liðsins að honum verði ekki heimilt að æfa né leika með liðinu fyrr en hann standist kröfur New York um bólusetningu.

Irving hefur ekki komið við sögu í liði Brooklyn það sem af er undirbúningstímabils en Brooklyn hefur til þessa ekki tilgreint ástæðuna fyrir fjarveru hans.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa fjallað um það undanfarnar vikur að Kyrie sé einn þeirra leikmanna í NBA-deildinni sem hafa ekki þegið bólusetningu við Covid-19.

Á dögunum var samþykkt í New York fylki að gerð yrði krafa um bólusetningu í íþróttahöllum og gilda sömu reglur í Kaliforníu. Irving er því ekki heimilt að æfa né taka þátt í heimaleikjum Brooklyn.

Fjarvera hans í leikjum kostar hann um 550 þúsund dollara í laun fyrir hvern leik. Þrátt fyrir það hefur hann til þessa ekki verið tilbúinn að gefast upp í baráttunni fyrir málstaðinn.

Andrew Wiggins, leikmaður Golden State Warriors, sótti um undanþágu frá bólusetningu vegna trúarlegra skoðana en þeirri undanþágubeiðni var hafnað. Hann hefur nú þegið bólusetningu.