Barcelona staðfesti í nótt að félagið hefði komist að samkomulagi við Ernesto Valverde um starfslok og á sama tíma að Quique Setién tæki við liðinu.

Starf Valverde var búið að vera í hættu í langan tíma eftir að Börsungar stóðu ekki undir væntingum í Meistaradeild Evrópu árin tvö sem hann stýrði liðinu. Kornið sem fyllti mælinn var tap liðsins gegn Atletico Madrid í Ofurbikarnum í síðustu viku.

Talið var líklegt að Xavi myndi taka við liðinu af Valverde en forráðamenn Barcelona ákváðu að semja við hinn 61 ára gamla Setién sem stýrði áður liði Real Betis.

Hann lék á sínum tíma þrjá leiki fyrir spænska landsliðið en stærstan hluta þjálfaraferilsins hefur hann stýrt liðum í næst efstu deild á Spáni ásamt því að stýra liði Miðbaugs-Gíneu í stuttan tíma.