Stig Nygård, handboltasérfræðingur norska sjónvarpsstöðvarinnar TV2 setur fjóra Íslendinga á lista sinn yfir fimmtíu bestu handboltamenn heims og Ómar Inga Magnússon í fjórða sæti listans.

Það er bæting um einn leikmann frá því að Nygård birti sambærilegan lista á síðasta ári. Af fjórum leikmönnum Íslands falla tveir þeirra niður listann en einn kemst í 14. sæti í frumraun sinni á listanum.

Ómar Ingi sem var í nítjánda sæti á listanum í fyrra er efstur Íslendinga í ár í fjórða sæti listans og fjallað um hinar gríðarlegu framfarir sem Ómar hefur tekið síðustu ár.

Aðeins Alex Dujsjebajev, Jim Gottfridsson og Dika Mem eru á undan Ómari á lista Nygård.

Liðsfélagi Ómars, Gísli Þorgeir Kristjánsson, er nýliði á listanum og kemst strax í fjórtánda sæti listans og er efstur af nýliðum listans. Gísla er lýst sem leikstjórnanda Magdeburg ásamt því að vera gríðarleg ógn í sóknarleiknum.

Aron Pálmarsson fellur niður listann annað árið í röð og er í 35. sæti að þessu sinni. Aron var í tuttugusta sæti á lista Nygård í fyrra og sjöunda sæti árið 2020.

Fjórði og síðasti fulltrúi Íslands á listanum er Bjarki Már Elísson í 42. sæti en hann fellur um fjórtán sæti á milli ára. Nygård minnist á að Bjarki hafi átt erfitt uppdráttar hjá Vezsprem en að hann sé enn meðal bestu hornamanna heims.