Það verða Bandaríkjamaðurinn Serena Williams og Rúmeninn Simona Halep sem leika til úrslita á Wimbledon-mótinu í tennis kvenna.

Williams hafði betur gegn Barboru Strycovu í undanúrslitum á meðan Halep lagði Elinu Svitolinu að velli í hinni undanúrslitaviðureigninni.

Beri Williams sigur úr býtum í úrslitaleiknum á laugardaginn kemur vinnur hún Wimbledon-mótið í áttunda skiptið.

Þá á hún möguleika á að vinna sinn 24. risamótstitil og jafna met hinnar austurrísku Margaret Court sem sigursælasta keppenda í sögunni á risamótum.

Síðasti sigur Williams á risamóti var árið 2017 en hún eignaðist stelpu í september það ár.

Halep er hins vegar að fara í úrslitaleik Wimbledon-mótsins í fyrsta skipti en eini sigur Rúmenans á risamóti kom á opna franska meistaramótinu árið 2018.