Serena meiddist í leik á Wimbledon-mótinu fyrr í sumar og gaf ekki kost á sér á Ólympíuleikunum.

Tennisstjarnan fagnar fertugsafmæli á næsta ári en henni vantar einn risatitil til að jafna met Margaret Court yfir flesta risatitla í sögunni.

Þegar hún gekk af velli á Wimbledon-mótinu átti hún erfitt með að halda aftur af tárunum og tók hún sér nægan tíma til að þakka fyrir sig.

Fyrir vikið hafa orðrómar verið á reiki um að hún gæti lagt tennisspaðann á hilluna á næstunni.

Serena sem er ein fremsta íþróttakona allra tíma var um tíma handhafi allra stærstu titlanna í tennis. Heilt yfir hefur hún unnið 73 mót, þar af 23 risamót og eitt Ólympíugull.

Eftir að hún eignaðist frumburð sinn árið 2017 sneri hún aftur inn á völlinn ári síðar en hún hefur ekki náð að landa 24. risatitlinum sem vantar í safnið til að jafna met Court.

Fjórum sinnum þurfti Serena að sætta sig við silfur en það eru komin tvö ár síðan hún lék síðast til úrslita á risamóti.

Eftir að Serena meiddist á Wimbledon-mótinu í sumar hafði tennisgoðsögnin Boris Becker orð á því að áhorfendur gætu hafa verið að horfa á síðustu stundir ferils hinnar ótrúlegu Serenu Williams.