Serena Williams, ein besta tenniskona allra tíma, virðist ætla að taka þátt á Wimbledon mótinu í ár, einu elsta og virtasta tennismóti heims miðað við nýjustu færslu tenniskonunnar á Instagram.
Serena hefur ekki sést inn á vellinum í tæpt ár eða frá því að hún þurfti að hætta keppni á Wimbledon í fyrra vegna meiðsla.
Í kjölfarið velti Boris Becker sem sjálfur var einn fremsti tennisspilari heims um tíma, hvort að ferli Serenu væri lokið.
Serena hefur sjö sinnum fagnað sigri á Wimbledon meistaramótinu.
Á dögunum var tilkynnt hvaða einstaklingar yrðu meðal þátttakenda á Wimbledon í ár þar sem nafn Serenu var hvergi sjáanlegt en hún virðist ætla að taka þátt.
Hin 40 ára gamla Serena hefur unnið 23 risatitla á ferlinum og vantar einn til að jafna met Margaret Court yfir flesta risatitla frá upphafi.