Christian Horner, liðsstjóri Formúlu 1 liðs Red Bull Racing sér ekki fyrir sér að fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel, sem lét gott heita á ökumannsferli sínum eftir síðasta tímabil, snúi aftur á þessum tímapunkti og taki við stjórnunarstöðu hjá Red Bull Racing.
Þetta lét Horner hafa eftir sér í viðtali við Auto Motor und Sport í Þýskalandi en áður hafði Helmut Marko, ráðgjafi hjá Red Bull Racing opnað fyrir endurkomu Vettel til liðsins.
Sebastian Vettel var ökumaður Red Bull Racing í sex tímabil og vann þar alla sína heimsmeistaratitla á Formúlu 1 ferlinum.
„Ég held ekki,“ sagði Horner er hann var spurður út í það hvort Vettel myndi snúa aftur til liðsins á næstunni. „Ég sé Vettel ekki fyrir mér í 9-17 vinnu eða að flytja til Bretlands, þá tel ég að það séu aðrir hlutir núna upp á borði hjá honum sem hann vill ná að afreka sjálfur og með fjölskyldu sinni.“
Það kæmi Horner á óvart ef Vettel myndi ráða sig í stjórnunarstöðu hjá Formúlu 1 liði þar sem hann þurfti að vera á vaktinni alla daga.