„Við fórum í það strax í kjölfar þess að aðgerðir voru boðaðar í þeim löndum þar sem leikmenn okkar spila að koma yngri leikmönnum sem eru í unglingaakademíum heim til Íslands þar sem þeir hafa dvalist síðustu vikurnar.

Eldri leikmenn hafa svo bara verið áfram á þeim stöðum þar sem þeir spila og fylgt þeim fyrirmælum sem gilda í hverju landi fyrir sig,“ segir Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður knattspyrnumanna hjá Stellar Nordic, í samtali við Fréttablaðið um þær breyttu aðstæður í knattspyrnuheiminum sem kórónaveirufaraladurinn hefur haft í för með sér.

Magnús Agnar segir að félög þeirra leikmanna þar sem skjólstæðingar hans spila hafi ekki boðað neinar drastískar aðgerðir. Þannig hafi þær aðgerðir sem farið var í fremur einkennst að tímabundnum launalækkunum sem leikmenn sýni fullan skilning á.

Hann býst ekki við því að félögin fari í það að segja upp samningum sínum við leikmenn í stórum stíl um komandi mánaðamót. Félögin líti almennt á þetta sem tímabundið ástand sem verði að tækla saman og komast í gegnum með samstöðu.  

Mesta breytingin á umhvefinu í Noregi

„Það er mismunandi í hverju landi fyrir sig eftir því hvaða vinnulöggjöf gildir hvaða úrræðum félögin geta beitt. Norðmenn fóru lengst í því að breyta fyrirkomulaginu hjá sér þar sem leikmenn voru á ákveðnum tímapunkti settir á atvinnuleysisbætur og þar af leiðandi urðu þeir í raun lausir undan samningi.

Ég tel að það rekstarástand sem þar gildir þessa stundina hafi orðið til þess að þeir urðu að fara þessa leið. Norska krónan hefur gert rekstrarumhverfið mjög erfitt hjá knattspyrnufélögum þar í landi auk þess þar sem erfitt er fyrir 16 efstudeildarfélög að reka sig þar í landi með góðu móti,“ segir hann.

„Eftir að þetta ástand líður hjá sé ég fyrir mér breytt rekstrarumhverfi í knattspyrnunni almennt. Mörg félög áttu í vandræðum áður en þetta vandamál kom upp og það gefur augaleið að þegar litlar tekjur skila sér á ákveðnum tímapunkti þá þarf að hugsa hlutina upp á nýtt. Ég held að mörg félög muni taka til í sínum rekstri og skoða um leið rekstarfyrirkomulagið sem eigi að gilda til frambúðar eftir að núverandi ástandi linnir.

Leikdagstekjur skipta mismiklu í rekstri félaganna. Félög sem eru ekki með miklar tekjur eins og sakir standa þurfa að fara aðrar leiðir en þau hafa áður gert á næstu mánuðum og leikmannaveltan verður líklega minni næstu misserin,“ segir umboðsmaðurinn um framhaldið.