Sepp Blatter, sem gegndi em­bætti formanns FIFA frá árinu 1998 til 2015, hefur verið á­kærður í Sviss fyrir fjár­svik og fleiri af­brot í em­bættis­tíð hans. Michel Platini, fyrr­verandi for­maður UEFA, verður á­kærður fyrir svipuð brot innan skamms og fyrir fjár­drátt og skjala­fals.

Blatter, 89 ára, og Platini, 65 ára, koma fyrir sviss­neskan dómara á næsta ári sam­kvæmt frétt Wall Street Journal.

Málið snýst um greiðslu tveggja milljóna sviss­neskra franka til Platini frá FIFA árið 2011. Greiðslan var að sögn þeirra tveggja vegna ráð­gjafar­starfs Platini vegna heims­meistara­mótsins í Frakk­landi árið 1998. Þeir neita báðir að um nokkuð ó­eðli­legt hafi verið að ræða. Platini hefur sjálfur bent á að hann hafi greitt skatta af henni til sviss­neskra yfir­valda.

Sepp Blatter og Michel Platini eru í vand­ræðum.
Fréttablaðið/EPA

Sak­sóknarar segja hins vegar að þetta hafi verið gegn hags­munum FIFA. Blatter var árið 2011 í fram­boði til formanns og þurfti stuðning frá UEFA, sem þá var undir stjórn Platini. Hann var talinn arf­taki Blatter hjá FIFA en til vin­slita kom er Blatter á­kvað að bjóða sig aftur fram árið 2015.

„Sönnunar­gögnin sýna fram á að greiðslan til Platini átti sér enga laga­lega rétt­lætingu. Þessi greiðsla var ekki FIFA til hags­bóta og auðgaðist Platini með ó­lög­mætum hætti,“ segir í yfir­lýsingu frá sviss­neskum sak­sóknurum.

Í yfir­lýsingu frá Blatter segist hann vonast til að málið verði leitt til loka sem fyrst.