Körfuknattleikskonan Brittney Griner hefur beðið Joe Biden Bandaríkjaforseta um aðstoð í bréfi sem hún sendi. Hún er föst í Rússlandi, þar sem hún er í haldi.

Griner hefur verið í haldi síðan um miðjan febrúar eftir að kannabisvökvi fyrir rafrettur fannst í farangri hennar við komuna til Rússlands.

Innihald bréfsins er að mestu haldið leyndu en fulltrúar leikmanninn hafa leyft almenningi að sjá nokkrar setningar í því.

„Er ég sit hér í rússnesku fangelsi, ein með hugsunum mínum og án verndar frá konu minni, fjölskyldu og vinum, án ólympíutreyjunnar minnar eða neins af því sem ég hef afrekað, er ég hrædd um að vera hér að eilífu,“ skrifar Griner.

„Þann 4. júlí (þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna) heiðrar fjölskylda okkar yfirleitt þá sem börðust fyrir frelsi okkar, eins og pabba mínum í Víetnam. Það er sárt að þessi dagur þýðir eitthvað allt annað fyrir mig í þetta skiptið.“

Brittney Griner
Fréttablaðið/EPA

Rússar hafa boðið bandarískum stjórnvöldum að skiptast á föngum ef Bandaríkin eru tilbúin að sleppa vopnasalanum Viktor Bout úr haldi sem var á sínum tíma dæmdur í 25 ára fangelsi.

Griner biður Biden um að gera allt sem í hans valdi stendur til að fá hana lausa frá Rússlandi. „Í bið þig um að gera allt sem þú getur til að koma okkur heim. Ég kaus í fyrsta sinn árið 2020 og ég kaus þig. Ég trúi á þig. Ég hef enn svo margt við frelsið mitt að gera og þú getur aðstoðað mig við að endurheimta það. Ég sakna fjölskyldunnar minnar, ég sakna konunnar minnar, ég sakna liðsfélaga minna. Það lætur mér líða svo illa að þau þjáist svo mikið núna. Ég er þakklát fyrir hvað sem þú getur gert til að koma mér heim.“

Griner hefur um árabil verið ein af bestu körfuboltakonum heims og leikið í Rússlandi yfir vorið þegar WNBA-deildin er í fríi.