Teymi UFC bardagakappans Daniel Rodriguez, sem stígur inn í bardagabúrið í London þann 18. mars næstkomandi og mætir þar Gunnari Nelson í veltivigtardeild UFC, sendir varnaðarorð til Íslendingsins í aðdraganda bardagans.
Daniel, líkt og Gunnar, er á fullu í undirbúningi sínum fyrir bardagann sem verður hans fyrsti í UFC fyrir utan Bandaríkin.
Á myndbandi sem liðsmaður úr teymi hans birtir á samfélagsmiðlinum Instagram skrifar hann, í texta við það, varnaðarorð til Gunnars.
„Gunnar ætti að búa sig undir að vera sleginn niður.“
Á myndbandinu sést Daniel, sem er svokölluð southpaw týpa af bardagamanni sem kýs að berjast standandi fremur en að fara og glíma í gólfinu, henda nokkrum höggum í æfingu sem þjálfari hans Manny setti upp.
Aðeins rétt rúmur mánuður er til stefnu þar til bardagakvöldið umrædda fer fram í London.
