Handknattleiksdeild ÍBV lýsti í síðasta mánuði yfir vantrausti á aðalstjórn íþróttafélags ÍBV eftir ákvörðun aðalstjórnar að breyta úthlutun fjármagns frá aðalstjórn. Handknattleiksdeild ÍBV telur að stjórnin hafi þverbrotið reglur félagsins með því að bera þessar breytingar ekki undir fulltrúaráð félagsins.

Í yfirlýsingu hennar kemur fram að þann 15. mars síðastliðinn hafi aðalstjórn félagsins ákveðið að breyta ríkjandi fyrirkomulagi í samningagerð og úthlutun á fé frá aðalstjórn. Það sem áður var helmingaskipt átti nú að vera 65 prósent til knattspyrnudeildar og rúmur þriðjungur til handknattleiksdeildar.

Greinagerðin sem fylgdi ákvörðuninni frá framkvæmdastjóra félagsins hafi verið hrakin að öllu leyti enda hafi fullyrðingar og fjárhæðir sem þar komu fram ekki staðist neina skoðun.

Með því hafi aðalstjórn ÍBV brotið reglur félagsins enda þurfi allar meiriháttar breytingar á starfsemi félagsins að fara fyrir fulltrúaráð áður en hún er samþykkt. Aðalstjórn hafi hins vegar hafnað öllum ábendingum.

Handknattleiksráð ÍBV sagði af sér í kjölfarið.

Bakhjarlar handboltans hjá ÍBV hafa nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem útskýrt er hvers vegna málið rataði í fjölmiðla:

Stuðningsfólk handbolta og ÍBV Íþróttafélags höfum verið spurð að því hvers vegna var málið ekki leyst innan félagsins án fjölmiðlaumræðu.

Svarið við því er einfalt.  Við erum búin að funda margoft með aðalstjórn á undanförnum vikum.  Við erum búin að fara yfir forsendur ákvörðunar aðalstjórnar frá 15. mars og sýna að okkar mati að hún var ólögleg skv. lögum og reglum félagsins sem og hún stóðst engin efnisleg rök.

Við erum margoft búin að koma til aðalstjórnar og funda með stjórninni og segja:  Dragið ákvörðunina til baka og setjumst svo niður.  Það merkilega er að á fundum aðalstjórnar hafa einstaka aðalstjórnarmenn tekið undir það að rétt sé að draga ákvörðunina til baka og eyða áhrifum hennar.  Síðan gerist ekki neitt og aðalstjórn tilkynnir að hún sé tilbúin að “setja ákvörðunina á ís”.  Þetta er það eina sem hefur komið frá aðalstjórn varðandi þá kröfu að draga ákvörðunina til baka um ójafna skiptingu.

Þetta er einfaldlega staðan.  Þetta er sú staða sem að okkar mati réttlæti upplýsingar til hins almenna félagsmanns og Eyjamanna.

Hver er því forsagan hjá ÍBV ÍÞróttafélagi, hvernig skiptast fjáraflanir innan félagsins og hvernig hefur staðan verið.  Hverjar voru forsendur aðalstjórnar þegar að hún tók ákvörðunina 15. mars sl.

Við höfum heyrt alls konar rök fyrir breytingu á skiptingu. Til dæmis að afrakstur handboltamótanna séu hjá handboltanum en fótboltamótin fari inn í félagið.  Þetta er rétt en skýringin á þessu er einföld.  Fyrir ca. 15-20 árum þá fékk fótboltinn úthlutað getraunum frá aðalstjórn og handboltinn fékk þá þessi handboltamót á móti og sáu auðvitað um vinnuna við fjáraflanirnar í staðinn.  Þarna var verið að horfa til jafnræðis.  Þá má nefna að þegar að handboltinn óskaði á sínum tíma eftir að fá að hafa bjórtjald á Þjóðhátíð þá samþykkti aðalstjórn það en þó þannig að það myndi til framtíðar skiptast jafnt á milli handbolta og fótbolta.  Sem sagt jafnræði.  Handboltinn samþykkti það.  

Heildarsamningar hafa miðast við jafnræði þar til fyrir skömmu þegar að aðalstjórn fór að tilkynna styrktaraðilum breytta skiptingu og það án samráðs innan félagsins.  

Hinn almenni félagsmaður á rétt á því að fá að vita hvernig málin hafa gengið fyrir sig undanfarið og í fortíðinni.

Á næstunni munum við birta greinar sem að skýra stöðuna og þá getur hinn almenni félagsmaður og Eyjamenn einfaldlega lagt mat á málið sjálfir.  Við munum einfaldlega leggja spilin á borðið og síðan getur hver og einn metið hvort vinnubrögð og ákvarðanir aðalstjórnar séu réttar eða rangar.

Stuðningsfólk handbolta og íBV ÍÞróttafélags