Breiðablik sækir Real Madrid heim í annarri umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta kvenna í kvöld en leikurinn fer fram á Alfredo Di Stéfeno-leikvanginum og hefst klukkan 19.00 að íslenskum tíma.

Blikar eru með alla sína leikmenn klára í slaginn utan þess að Selma Sól Magnúsdóttir sem missti af tapleiknum gegn PSG í fyrstu umferðinni vegna meiðsla er í kapphlaupi við tímann um að ná leiknum.

Real Madrid hefur farið brösuglega af stað heima fyrir en fyrsti sigurleikur liðsins í spænsku efstu deildinni kom gegn Eibar í síðustu umferð deildarinnar.

Caroline Møller og Rocío Gálvez skoruðu mörk Real Madrid í þeim leik sem fleytir liðinu í fjögur stig og upp í 13. sæti .

Lorena Navarro skoraði svo sigurmark Real Madrid í 1-0 sigri liðsins í fyrstu umferð í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Real Madrid saknar sárlega sænska sóknarmannsins Kosovare Asllani sem á við meiðsli að stríða.

Í þessum tveimur sigurleikjum spilaði liðið leikkerfið 3-5-2 og má búast við því að sama verði uppi á teningnum í þessum leik.

Leikurinn, verður frumraun Ásmundar Arnarsonar, en hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu af Vilhjálmi Kára Haraldssyni á dögunum.

Hægt verður að horfa á leikinn YouTube á slóðinni https://youtu.be/40HZcWa4OGY