Þeir eru fjölmargir Íslendingarnir sem hafa flykkst til Englands í gegnum árin til að fylgjast með liðum sínum og marga þyrstir í að komast út á þessu tímabili enda hefur heimsfaraldurinn sett töluverðar skorður á ferðir landans á leiki í ensku úrvalsdeildinni síðustu tvö keppnistímabilin.

Sigurður Helgi Hlöðversson, eða Siggi Hlö eins og hann er oftast nefndur, er framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Visitor, sem eins og undanfarin ár býður upp á ferðir á leiki Liverpool og Manchester United. Siggi er forfallinn stuðningsmaður United og var að sjálfsögðu mættur á Old Trafford á sunnudaginn þar sem hann sá sína menn bíða lægri hlut fyrir liði Brighton.

„Ég er beygður en ekki brotinn eftir þennan fyrsta leik,“ segir Sigurður, sem hefur í nógu að snúast í að útvega ferðaþyrstum miða eða ferðapakka til Englands.

„Það er mikil ásókn í miða á leikina og þeir seljast nánast allir upp þegar við setjum þá í sölu. Það er tvennt sem fólk er að klikka á þetta haustið. Það sem gerðist í Covid er að fólk er lengur að taka ákvarðanir sem þýðir að loks þegar það rankar við sér og ætlar að henda sér í ferðir eru bestu bitarnir farnir. Fólk verður svekkt þegar það uppgötvar að það hafi haft samband of seint. Svo er HM að spila stóra rullu í haustferðirnar.

Það verða bara haustferðir fram í fyrstu vikuna í nóvember þar sem HM fer af stað í Katar seinni hlutann í nóvember. Enski boltinn fer ekki aftur í gang eftir HM fyrr en á annan í jólum. Þá er erfitt að selja Íslendingum hópferðir því þá eru allir í hangikjötinu. Ferðaáhuginn er mikill en fólk er ennþá svolítið hrætt eftir heimsfaraldurinn. Það hugsar; á ég að kaupa ferð eða verður hún felld niður. Þessi hugsunarháttur er enn þá í gangi en er ástæðulaus,“ segir Sigurður.

Old Trafford heillar enn þrátt fyrir slakt gengi

Sigurður segir að það sé auðveldast að selja Íslendingum miða á leiki Liverpool og Manchester United en þessi félög eiga langfjölmennustu stuðningsmennina hér á landi. „Þeir sem halda með liðum frá London eiga hægara um vik að komast út á leiki sinna liða enda einhverjar 15 flugferðir til London á degi hverjum. Það er hins vegar mikil samkeppni um sætin til Liverpool og Manchester. Play flugfélagið er að fara fljúga beint til Liverpool og við höfum gert stóran samning við það um sæti í öllum þeirra ferðum allt tímabilið þegar Liverpool spilar heimaleiki,“ segir Sigurður.

Liverpool hefur átt mikilli velgengni að fagna undanfarin ár og íslenskir stuðningsmenn liðsins hafa streymt á Anfield sem aldrei fyrr. Gengi United hefur hins vegar ekki verið upp á marga fiskana en það hefur ekki komið í veg fyrir að íslenskir stuðningsmenn vilji komast á Old Trafford.

„Old Trafford heillar enn þrátt fyrir slakt gengi. Ronaldo er þarna ennþá og ég tók eftir því að stúkan fór næstum á hliðina þegar hann byrjaði að hita upp. Hann trekkir mikið að og Christian Eriksen var að trekkja það hressilega að ég keypti mér treyju númer 14 með Eriksen á bakinu,“ segir Sigurður, sem hefur misst tölu á fjölda heimsókna sinna á Old Trafford.

„Árið 2015 var ég kominn í 100 og eftir það hætti ég að telja enda skekkist myndin aðeins þegar maður starfar í þessum geira. Ég er búinn að fagna og grenja til skiptis á Old Trafford. Svo mikið er víst.“

Siggi telur að slagurinn um meistaratitilinn verði á milli Manchester City og Liverpool eins og síðustu ár. Erling Haaland er að fara að gera einhverja stórkostlega hluti og ætli City hafi þetta ekki. Hvað mína menn varðar þá yrði það stórkostlegt að ná Meistaradeildarsæti og ég ætla að leyfa mér að vera svo brattur að spá þeim fjórða sætinu. Það yrði kraftaverk.“