Selfoss er kominn í 3. umferð EHF-bikars karla í handbolta eftir 32-26 sigur á Riko Ribinca frá Slóveníu í Hleðsluhöllinni í kvöld. Riko Ribnica vann fyrri leikinn á sínum heimavelli, 30-27, en Selfoss vann einvígið, 59-53 samanlagt.

Selfyssingar spiluðu frábæra vörn í leiknum og markvarslan var að mestu góð. Gestirnir töpuðu boltanum trekk í trekk í upphafi leiks en heimamenn nýttu það sér ekki nógu vel.

Selfoss var samt alltaf sterkari aðilinn og náði mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik, 15-8. Riko Ribnica skoraði hins vegar síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og staðan því 15-10 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti, sóknin gekk smurt og heimamenn náðu aftur sjö marka forystu, 19-12. Gestirnir frá Slóveníu þjösnuðust samt alltaf áfram og eftir að þeir minnkuðu muninn í fjögur mörk, 22-18, tók Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, leikhlé.

Selfyssingar skoruðu næstu tvö mörk og forysta þeirra var aldrei í hættu síðasta stundarfjórðung leiksins. Á endanum munaði sex mörkum á liðunum, 32-26.

Markaskorið dreifðist vel hjá Selfossi. Alexander Már Egan átti frábæran leik í hægra horninu og var markahæstur með átta mörk. Einar Sverrisson skoraði sex mörk, þar af fimm af vítalínunni, og Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk og var öflugur í vörninni.

Pawel Kiepulski varði vel í fyrri hálfleik og Sölvi Ólafsson átti svo frábæra innkomu í þeim seinni. Á meðan vörðu markverðir Riko Ribnica sama og ekkert.

Í 3. umferð keppninnar geta Selfyssingar mætt stórliðum á borð við Kiel, Magdeburg og Füchse Berlin.