Selfoss náði að kreista fram 30-29 þegar liðið sótti ÍBV heim til Vestmannaeyja í fimmtu umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld.

Selfyssingar náðu fljótlega frumkvæðinu í leiknum og leiddu 15-13 í hálfleik. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður voru gestirnir sex mörkum yfir, 26-20.

Til þess að bæta gráu ofan á svart fyrir Eyjamenn hafði Elliða Snæ Viðarssyni sem var nýverið valinn í leikmannahóp íslenska landsliðsins verið vísað af velli með rauðu spjaldi.

Leikmenn ÍBV voru ekki af baki dottnir og náðu með mikilli seiglu að komast yfir í 29-28 þegar skammt var eftir af leiknum.

Selfoss skoraði hins vegar tvö síðustu mörk leiksins og það var Hergeir Grímsson sem tryggði liðinu sigurinn með marki úr vítakasti á lokaandartökum leiksins.

Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur hjá Selfossi með átta mörk en Hergeir Grímsson og Haukur Þrastarson komu næstir með sex mörk hvor.

Kristján Örn Kristjánsson og Hákon Daði Styrmisson voru hins vegar atkvæðamestir fyrir heimamenn með níu mörk hvor.

Selfoss hefur sjö stig eftir þennan sigur en situr áfram í fimmta sæti deildarinnar en er nú einu stigi á eftir ÍBV, Haukum og Aftureldingu sem eru í sætunum fyrir ofan. ÍR er svo með fullt hús stiga á toppnum.