Selfoss hafði betur 27-22 þegar liðið sótti Hauka heim í fyrsta leik liðanna í úrslitum Olísdeildar karla í handbolta í Schenker-höllina að Ásvöllum í kvöld.

Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik þar sem Sölvi Ólafsson lék vel í marki Selfoss voru gestirnir 14-11 yfir í hálfleik. Haukar komu hins vegar af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn og þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum var staðan jöfn 17-17.

Þá tók Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss leikhlé og eftir það var jafnt á öllum tölum. Gestirnir frá Selfossi voru sterkari aðilinn á lokakafla leiksins og fóru að lokum með fimm marka sigur af hólmi.

Sölvi varði rúmlega 20 skot í leiknum þar af þrjú vítaköst. Elvar Örn Jónsson var markahæstur í liði Selfoss með sex mörk en Árni Steinn Steinþórsson kom næstur með fimm mörk og Hergeir Grímsson skoraði fjögur mörk.

Daníel Þór Ingason skoraði mest fyrir Hauka eða sjö mörk talsins, Atli Már Báruson kom þar á eftir með sex mörk og Heimir Óli Heimsson bætti fjórum mörkum við.

Liðin mætast næst í Hleðsluhöllinni á Selfossi á föstudagskvöldið kemur.