Selfyssingar hafa skrifað undir samning við spænska félagið Real Betis um samstarf við uppbyggingu ungra og efnilegra leikmanna til að undirbúa þá fyrir hæsta getustig körfuboltans. Félögin munu vinna að sameiginlegri, faglegri sýn varðandi liðsuppbyggingu, umgjörð, þróun leikmanna frá öllum hliðum og hinum æðri markmiðum körfuboltans. Búið er að vinna í heilt ár að samningnum.

Real Betis leikur í ACB deildinni á Spáni sem er af mörgum talin sú næstbesta í heimi á eftir NBA deildinni og hefur þegar einn leikmaður komið til Selfyssinga frá Betis, Kennedy Clement sem er 18 ára og yngri landsliðsmaður Spánar.

Vinnan við samninginn hófst að frumkvæði þjálfarans Chris Caird sem hefur staðið í ströngu samkvæmt Gylfa Þorkelssyni, formanni körfuboltadeildarinnar. „Þetta er spennandi samstarfsverkefni sem við erum komnir í og varðar uppbyggingu akademíu okkar. Við fáum hjá þeim þjálfara og einn leikmaður hefur verið hjá okkur í vetur. Það eru opnar leiðir fram og til baka fyrir unga leikmenn. Annars vegar fyrir okkar stráka að sjá tækifæri til að komast á mála hjá þeim og hins vegar frá þeim fyrir stráka sem eru ekki að fá margar mínútur til að koma í akademíuna okkar,“ segir Gylfi.

Hann segir að körfuboltadeild Selfoss sé ekki með marga þúsundkalla á milli handanna og það hafi því verið ákveðið að ala upp leikmenn. „Við erum að horfa í að byggja upp unga leikmenn. Það eru sumir sem segja að það sé rétta leiðin. Við erum ekki að spenna bogann með fullt af atvinnumönnum. Við keppum ekki við það og tökum þennan pól í hæðina. Byggjum upp ungviðið og bjóðum upp á faglegt, gott og sterkt starf sem stenst kröfur.“

Gylfi bendir á að Spánn sé með bestu deildina í Evrópu þannig að hann trúi því að þjálfarar og aðrir sem koma nálægt starfinu hjá Real Betis viti hvað þeir komi með til borðsins. „Þeir hljóta að hafa einhverja hugmynd um hvernig eigi að gera hlutina,“ segir hann léttur.

Gylfi bendir á að akademían við FSU sé í boði bæði fyrir stráka og stelpur en þar er unnið eftir umhverfi sem Selfoss vill skapa. Það hafi tekist ágætlega í hinum boltaíþróttunum, hand- og fótbolta. „Þetta er mikilvægt skref í þá átt að það sé faglegt og gott starf. Það eru fimm strákar frá Englandi, einn frá Póllandi og einn frá Slóveníu í akademíunni okkar til að vera í þessu umhverfi.“

Hann vonast til að körfuboltaakademían taki næsta skref með þessum samningi en hún var sett á laggirnar árið 2005. Síðan komu hand- og fótboltinn í kjölfarið, fimleikar, frjálsar íþróttir og svo golfakademía sem stofnuð var árið 2020. „Við erum að taka næsta skref fram á við að okkar mati með þessum samningi. Þetta er spennandi verkefni.“

Gylfi Þorkelsson kennslustjóri FSu í fangelsum