Selfoss hafði betur 32-30 þegar liðið atti kappi við Hauka í þriðja leik liðanna í einvíginu um sigur í Olísdeild karla í handbolta. Staðan í viðureigninni er þar af leiðandi 2-1 Selfossi í vil en bera þarf sigurorð í þremur leikjum til þess að standa uppi sem Íslandsmeistari.

Haukar voru í ansi góðri stöðu þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum en þá voru heimamenn 26-21 yfir. Patrekur Jóhannesson tók þá leikhlé, fór í sjö á móti sex í sókninni og setti Sölva Ólafsson í markið.

Leikmenn Hauka fóru illa með sóknir sínar og köstuðu frá sér sigrinum. Selfyssingar skoruðu sjö mörk á móti einu á lokakafla venjulegs leiktíma.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var jöfn 27-27 en bæði liðin fóru illa að ráði sínu í lokasóknum sínum í venjulegum leiktíma og glutruðu klaufalega tækifæri til þess að tryggja sér sigur og forystu í einvígi liðanna.

Selfyssingar voru svo sterkari aðilinn undir lok framlengingarinnar og lönduðu að lokum tveggja marka sigri. Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur hjá Selfossi með 10 mörk en Brynjólfur Snær Brynjólfsson skoraði mest fyrir Hauka eða sjö mörk talsins og Adam Haukur Baumruk kom næstur með sex mörk.

Liðin mætast í fjórða leiknum í Hleðsluhöllinni á Selfossi á miðvikudaginn kemur en Selfoss getur þarf tryggt sér fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins.