Staðan í viðureign Hauka og Selfoss í rimmu liðanna í úrslitum Olísdeildar karla í handbolta er jöfn 1-1 en Haukar jöfnuðu einvígið með 27-26 sigri í öðrum leik liðanna í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.

Eftir að jafnræði hafði verið með liðunum framan af fyrri hálfleik og mikla refskák þjálfara liðanna sigu Selfyssingar fram úr undir lok fyrri hálfleiksins. Selfoss náði mest fimm marka forystu 14-9 í fyrri hálfleik en Haukar skoruðu hins vegar síðustu tvö mörk fyrri hálfleiksins og Tjörvi Þorgeirsson minnkaði muninn í 14-11 með marki beint úr aukakasti eftir að leiktíminn var runninn út.

Haukar tóku hins vegar taki í hálfleik og hófu seinni hálfleikinn mjög vel og eftir að skammt var liðið af síðari hálfleiknum voru gestirnir úr Hafnarfirðinum búnir að laga stöðuna í 16-15. Þetta er mjög svipuð þróun og var í fyrsta leik liðanna í Schenker-höllinni. Um miðbik seinni hálfleiks jafnaði Atli Már Báruson skytta Hauka svo metin í 18-18.

Að þessu sinni voru það Haukar sem reyndust sterkari á lokaandartökum leiksins en Daníel Þór Ingason skoraði sigurmark liðsins í þann mund sem leikurinn kláraðist. Miklu munaði um framlag markvarðasveitar Hauka en Grétar Ari Guðjónsson varði 12 skot og Andri Sigmarsson Scheving sjö skot þar af þrjú vítaköst.

Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur í liði Hauka með átta mörk en Tjörvi Þorgeirsson kom næstur með sín fimm. Haukur Þrastarson skoraði mest fyrir sjö mörk talsins og Nökkvi Dan Elliðason og Elvar Örn Jónsson fylgdu þar á eftir með fimm mörk.

Þriðji leikur liðanna fer fram í Schenker-höllinni að Ásvöllum á sunnudaginn kemur.