Selfoss braut blað í sögu knattspyrnunnar í bæjarfélaginu þegar liðið varð bikarmeistari í fyrsta skipti í knattspyrnu kvenna með 2-1 sigri gegn KR í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á Laugardalsvellinum í kvöld.

Gloria Douglas kom KR yfir eftir tæplega 20 mínútna leik en boltinn barst til hennar eftir hornspyrnu. Bandaríski framherjinn lék laglega á tvo varnarmenn Selfoss áður en hún lét skotið ríða af sem Kelsey Wys réð ekki við og Vesturbæingar komnir með forystu.

Hólmfríður Magnúsdóttir fyrrverandi leikmaður KR jafnaði svo metin fyrir Selfoss á 36. mínútu leiksins. Hólmfríður lék þá varnarlínu KR-inga grátt og skoraði með skoti sem fór í fallegum boga yfir Ingibjörgu Valgeirsdóttur markvörð KR og svo slána og inn.

Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og þar af leiðandi þurfti að framlengja leikinn. Þar var það Þóra Jónsdóttir sem hafði komið inná sem varamaður í leiknum sem reyndist hetja Selfyssinga.

Þóra fékk boltann rétt fyrir utan vítateig KR-liðsins, var ekkert að tvínóna við hlutina heldur freistaði gæfunnar. Það skilaði sér svo sannarlega þar sem boltinn söng í netinu.

Guðmunda Brynja Óladóttir fékk besta færið til þess að koma leiknum í framlengingu í seinni hluta framlengingarinnar en Wys sá við henni í upplögðu marktækfæri. Bikarinn er því á leið á Selfoss í fyrsta sinn í sögunni.

Lið Selfoss í leiknum var þannig skipað: Kelsey Wys - Anna María Friðgeirsdóttir, Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir (Cassie Boren '109.), Brynja Valgeirsdóttir, Bergrós Ásgeirsdóttir - Allison Murphy (Þóra Jónsdóttir '88.), Karitas Tómasdóttir, Barbára Sól Gísladóttir (Halla Helgadóttir '113.) - Magdalena Anna Reimus ( Hrafnhildur Hauksdóttir '70.), Hólmfríður Magnúsdóttir, Grace Rapp.

Lið KR í leiknum var þannig skipað: Ingibjörg Valgeirsdóttir - Tijana Krstic, Ingunn Haraldsdóttir, Laufey Björnsdóttir (Hlíf Hauksdóttir '108.), Lilja Dögg Valþórsdóttir (Kristín Erla Ó Johnson '35.) - Þórunn Helga Jónsdóttir (f) (Sandra Dögg Bjarnadóttir '66.), Grace Maher, Betsy Hassett - Guðmunda Brynja Óladóttir, Katrín Ómarsdóttir, Gloria Douglas.