Aganefnd HSÍ barst skýrsla frá dómara í leiks Vals U og Harðar frá Ísafiði vegna framkomu aðila á vegum Harðar á leiknum. Samkvæmt skýrslunni kom fram að aðilanum hafi verið vísað úr húsi af dómara vegna vítaverðrar framkomu gagnvart starfsmönnum leiksins.

Í úrskurði aganefndarinnar segir: ,, Handknattleiksdeild Harðar var gefinn frestur til að skila inn greinargerð sem barst aganefnd. Þá var leitað eftir athugasemdum og sjónarmiðum handknattleiksdeildar Vals vegna málsins og einnig liggur fyrir myndbandsupptaka af leiknum. Af fyrirliggjandi gögnum málsins er ljóst að hlutaðeigandi aðili var á vegum handknattleiksdeildar Harðar, en orðaval hans á fyrrgreindri myndabandsupptöku rennir enn frekari stoðum undir það. Þó aðilum beri ekki saman um málsatvik, þá er hafið yfir vafa að mati aganefndar, að það orðfæri sem var viðhaft og lýst í skýrslu dómara, og heyrist að hluta til á fyrirliggjandi myndbandsupptöku, teljist vítaverð framkoma gagnvart starfsmönnum leiksins. ."

Niðurstaða aganefndar var sú að málið varði sektum gagnvart handknattleiksdeild Harðar og hljóðaði sektin upp á 25.000 krónur.

Í 17. gr. reglugerðar HSÍ um agamál kemur fram að „ef áhorfendur, þar með taldir forystumenn félaga, gerast sekir um vítaverða eða hættulega framkomu gagnvart leikmönnum, dómurum eða starfsmönnum leiks, er aganefnd heimilt að sekta viðkomandi félag þar sem leikurinn fer fram sem og gestaliðið í sérstökum tilvikum.“