Evrópumótaröðin í golfi tilkynnti í dag að allir kylfingar mótaraðarinnar sem hefðu tekið þátt í fyrsta móti LIV-mótaraðarinnar á dögunum ættu von á 120 þúsund dala sekt og keppnisbanni.

Margir af þekktustu kylfingum heims hafa undanfarnar vikur tilkynnt að þeir ætli að skipta um mótaröð og gengið til liðs við hina nýju LIV-mótaröð sem er fjármögnuð af Sádi-Aröbum.

Sergio Garcia, Martin Kaymer og Louis Oosthuizen eru meðal þeirra kylfinga á Evrópumótaröðinni sem tóku tilboði LIV en þeir eiga von á sekt frá mótaröðinni og verða bannaðir frá keppni á næstu þremur mótum Evrópumótaraðarinnar.

Mótaröðin bætti við að umræddir leikmenn ættu von á frekari refsingum ef þeir myndu halda áfram þáttttöku sinni á LIV-mótaröðinni.