Íslenska karlalandsliðið í körfubolta bar sigurorð af Lúxemborg þegar liðin mættust í þriðju umferð í forkeppni fyrir HM 2023 í Bratislava í Slóvakíu í dag. Eftir að hafa verið ólíkir sjálfum sér í fyrri hálfleik rönkuðu íslensku leikmennirnir við sér í þeim seinni og innbyrtu að lokum 90-76 sigur.

Leikmenn Lúxemborgar sem höfðu beðið ósigur í fyrstu tveimur leikjum sínum í forkeppninni gegn Kósóvó og Slóvakíu voru greinilega staðráðnir í að koma sér á blað í keppninni. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en þriggja stiga karfa þegar leiktíminn var að renna út varð til þess að Lúxemborg var 24-23 yfir að leikhlutanum loknum.

Sigtryggur Arnar Björnsson hóf leikinn best fyrir íslenska liðið en hann var kominn með 10 stig eftir fyrsta leikhluta. Lúxemborg jók svo kraftinn í upphafi annars leikhluta en íslenska liðið náði ekki að skora fyrstu þrjár mínútur þess leikhluta rúmar og staðan á þeim tíma var 30-23. Skotnýting íslenska liðsins í opnum leik var slök fram að þessum tímapunkti, rúm 15 prósent úr þriggja stiga skotum og um það bil 25 prósent úr vítateignum.

Allt annað að sjá leikmenn Íslands í seinni hálfleik

Ísland náði að laga stöðuna örlítið áður en fyrri hálfleik lauk en Kári Jónsson skoraði sjö síðustu stig íslenska liðsins í öðrum leikhluta. Staðan var 38-34 Lúxemborg í vil í hálfleik. Tvær þriggja stiga körfur í röð og stig af vítalínunni hjá Herði Axel Vilhjálmssyni um miðja þriðja leikhluta urðu til þess að staðan var jöfn 47-47. Íslenska liðið hamraði járnið á meðan það var heitt og komust 58-48 yfir.

Eftir góðan þriðja leikhluta var Ísland sjö stigum yfir, 66-59, en það kviknaði á nokkrum leikmönnum íslenska liðsins í þeim leikhluta. Munaði þar einna mest um hamskipti Tryggva Snæs Hlinasonar sem var með eitt stig í fyrri hálfleik en 16 stig í þeim seinni. Jón Axel Guðmundsson hrökk svo í gang í fjórða leikhluta. Þegar yfir lauk tryggði Ísland sér nauðsynleg tvö stig með 90-76 sigri.

Ísland mætir Kósóvó á laugardaginn kemur

Stigaskor Íslands í leiknum: Tryggvi Snær Hlinason 17 stig, Jón Axel Guðmundsson 14 stig, Elvar Már Friðriksson 13 stig, Ægir Þór Steinarsson 13 stig, Sigtryggur Arnar Björnsson 12 stig, Kári Jónsson 10 stig, Hörður Axel Vilhjálmsson 9 stig, Tómas Þórður Hilmarsson 2 stig.

Ísland og Kosovó hafa tvo sigra á toppi riðilsins en íslenska liðið laut í lægra haldi fyrir Kosóvó og hafði betur gegn Slóvakíu í fyrstu tveimur leikjum forkeppninnar. Tvö efstu lið riðilsins fara áfram í annað stig af þremur í undankeppninni fyrir heimsmeistaramótið.

Slóvakía er í þriðja sæti riðilsins með einn sigur og eitt tap og Lúxemborg er í neðsta sæti riðilsins án sigurs eftir þrjá leiki. Slóvakía og Kósóvó mætast í kvöld en Ísland mætir svo Kósóvó á laugardaginn kemur og Slóvakía og Lúxemborg etja kappi.