Í pistli sem birtist á heimasíðu körfuboltafélagsins Aþenu kemur fram að liði félagsins hafi verið meinað að spila á Álftanesi fyrir tilstuðlan stjórnarmanna körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar.

Fyrir vikið sé Aþena aftur í leit að heimavelli en félagið tekur þátt í fyrsu deild í fyrsta sinn í vetur. Heimildarmynd um félagið, Hækkum Ránna, vakti mikla athygli fyrr á þessu ári.

Brynjar hefur undanfarin ár þjálfað meðal annars hjá Stjörnunni og ÍR en á heimasíðu Aþenu kemur fram að félagið sé stofnað í kringum samfélagsverkefni að valdefla ungt fólk í kringum íþróttir.

Í tilkynningunni kemur fram að ekki hafi tekist að finna íþróttahús innan ÍBR og var því ákveðið að ganga til samninga við Íþróttamiðstöð Álftaness í Garðabæ.

Íþróttafulltrúi Garðabæjar hafi staðfest það í bréfi til Aþenu og í kjölfarið á því var heimavöllurinn skráður inn á borð KKÍ.

Degi eftir að fréttaflutningur af því að Aþena myndi senda lið til leiks í meistaraflokki hafi hinsvegar borist bréf þar sem samkomulagið var dregið til baka.

Í tilkynningunni hafi komi fram að stjórnarmenn körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar hafi sett sig upp á móti áformum Garðabæjar að Aþena fengi aðstöðu á Álftanesi.

Því er félagið farið í leit að íþróttaheimili til notkunar fyrir tímabilið en tæplega einn og hálfur mánuður er í fyrsta leik Aþenu í 1. deildinni gegn Vestra.