Greint er frá því á Fotbolti.net í dag að KR og Björgvin Stefánsson hafi áfrýjað fimm leikja banni sem Björgvin fékk fyrir rasísk ummæli sem hann lét falla við að lýsa leik Hauka og Þróttar.

Björgvin var fyrir helgi dæmdur í fimm leikja bann af aganefndinni vegna ummæla sinna við að lýsa leik hjá uppeldisfélagi sínu, Haukum og Þróttar í Inkasso-deildinni á Youtube rás Hauka.

Archange Nkumu, leikmaður Þróttar, var spjaldaður fyrir tæklingu og heyrðist þá frá Björgvini: „Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ sagði Björgvin sem baðst þó undir eins afsökunar og sendi frá sér tilkynningu líkt og Haukar og KR.

Björgvin átti að missa af leikjum KR gegn ÍBV, FH, Val, Breiðablik og ÍA ásamt því að missa af leik KR og Njarðvíkur í bikarnum vegna uppsafnaðra spjalda en ljóst er að bannið tekur ekki gildi strax vegna áfrýjunnar KR.