Greint er frá því á Fotbolti.net í kvöld að Jón Þór Hauksson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hafi verið undir áhrifum áfengis og farið yfir strikið í samræðum við leikmenn sína á þriðjudaginn.

Ísland vann nauman sigur á Ungverjum og komst beint á Evrópumótið síðar um kvöldið eftir sigur Belga á Sviss. Þá varð ljóst að Ísland myndi leika á EM í fjórða skiptið í röð.

Jón Þór staðfestir í samtali við Fotbolta.net að þarna hafi átt sér stað samræður sem áttu ekki að eiga sér stað á þessum tíma og við þessar aðstæður. Hann segist hafa rætt við umrædda leikmenn og beðið þá afsökunar.

Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, staðfesti að málið væri til skoðunnar innan sambandsins og vildi ekki frekar tjá sig um málið þegar Hafliði Breiðfjörð, einn af ritstjórum Fotbolta.net leitaði svara hjá KSÍ.