Knattspyrnufréttavefsíðan Goal.com setur íslenska landslðiðið í 10. sæti í kraftröðun sinni yfir liðin 16 sem taka þátt á Evrópumótinu í Englandi sem hófst í gær. Ísland sé með sitt besta lið á stórmóti til þessa og gæti komið á óvart.

Ísland spilar sinn fyrsta leik á mótinu gegn Belgíu á sunnudaginn næstkomandi og miðað við umsögn Goal.com um íslenska liðið er ástæða til þess að vera spenntur fyrir þátttöku Íslands á mótinu.

,,Ísland er að fara á sitt fjórða Evrópmót í röð. Liðið komst upp úr sínum riðli á mótinu árið 2013 en mætir nú til leiks með sitt besta lið til þessa."

,,Liðið er skipað leikmönnum sem spila í bestu deildum Evrópu en þá eru einnig spennandi ungir leikmenn innanborðs, leikmenn sem eru tilbúnir til þess að láta ljós sitt skína."

Sérfræðingar Goal.com segja að með þessari blöndu sem og ófyrirsjáanlegum riðli Íslands í keppninni, gætu óvæntir hlutir gerst hjá liðinu.

Ef tekið er mið af kraftröðun Goal.com er það mat sérfræðinga að Ítalía og Frakkland séu líklegust til þess að komast upp úr riðli Íslands.

Ítalir eru í 8. sæti kraftröðunnarinnar og Frakkar í 7. sæti. Belgar eru hins vegar í 13. sæti.

Þá telja sérfræðingar Goal.com að Svíar séu með sigurstranglegasta liðið á mótinu.