Haukur Þrastarson leikmaður Selfoss mun ganga til liðs við pólska meistaraliðið Kielce en pólsk­ir fjöl­miðlar greina frá því í dag að hann hafi gengið frá þriggja ára samningi við félagið og muni fara í herbúðir félagsins næsta sumar.

Haukur sem er 18 ára gamall varð Íslandsmeistari með Selfossi síðastliðið vor en hann hefur orðaður við evrópsk stórlið undanfarná mánuði.

Nú virðist vera búið að ákveða hver næsti áfangastaður á ferli þessa frábæra leikstjórnanda verður. Haukur er markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar en hann hefur skorað 83 mörk í fyrstu 10 leikjum Selfoss í vetur.

Þá er hann sömuleiðis í efsta sæti á listanum yfir flestar stoðsendingar í deildinni en hann hefur gefið 55 sendingar á samherja sína sem hafa endað með marki.

Kielce er stórveldi í pólskum handbolta en liðið hefur orðið pólskur meistar átta ár í röð og bikar­meist­ari síðustu 11 árin. Liðið fór með sigur af hólmi í Meist­ara­deild Evr­ópu fyr­ir þrem­ur árum.